144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni og hvet hæstv. forsætisráðherra til að flytja okkur hér skýrslu um stöðu mála á vinnumarkaði og lýsa því hvernig hann sér fyrir sér innlegg ríkisins í því sambandi. Af því að ráðherra byrjaði á því í pontu að bera af sér það sem hann hefur sagt er nú vert að rifja það upp að þann 15. maí taldi hann helst að stjórnarandstaðan væri að þvælast fyrir því að hægt væri að koma til móts við kröfur ASÍ. Samt vill hann ekki meina að hann hafi rætt þetta mál í tengslum við kjarasamninga eða ASÍ.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu, með leyfi forseta:

„Ef menn vilja að launahækkanir skili sér raunverulega í auknum kaupmætti þá þurfum við aukna verðmætasköpun í þessu landi. Þar hefur því miður í allt of mörgum tilvikum strandað á orkuskorti.“

Mig langar til að biðja hæstv. forsætisráðherra að útskýra þann orkuskort.