144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er víst ábyggilegt að núverandi hæstv. ráðherrar verða seint kallaðir miklir friðarhöfðingjar, en sú athugasemd sem ég geri við fundarstjórn forseta og þinghaldið felst í þeirri staðreynd að hv. þingmenn meiri hlutans á Alþingi hafa kosið að umgangast löggjöf um rammaáætlun eins og hvert annað hlaðborð. Þetta hefur ítrekað komið fram í umræðum hér, herra forseti, þar sem menn velja hvort þeir kjósa að vitna til verkefnisstjórnar í öðrum áfanga eða þeirrar verkefnisstjórnar sem nú starfar; þar sem menn draga fram gamlar umsagnir um síðustu rammaáætlun máli sínu til stuðnings en kjósa að sleppa nýjum umsögnum um málið sem nú er til umræðu; þar sem menn forðast að svara því til hvers nýta eigi orkuna og viðurkenna jafnvel í ræðustól að þeir hafi ekki hugmynd um það; þar sem bent er á meinlegar villur í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar Alþingis og ekki nokkur maður gerir tilraun til að svara fyrir það.

Herra forseti. Þessi umræða er með öllu ótæk. Ef virðulegum forseta er annt um virðingu þingsins þá ætti að taka það fyrir hvernig menn umgangast umræðuna hér, (Forseti hringir.) hvernig menn umgangast löggjöf sem Alþingi sjálft hefur sett, eins og eitthvert hlaðborð þar sem sé hægt að velja (Forseti hringir.) og hafna. Það er ekki þannig sem við eigum að umgangast lögin, herra forseti.