144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær var viðtal í sjónvarpinu við ríkissáttasemjara sem sagði að ástandið í samfélaginu væri miklu víðtækara og flóknara og erfiðara en það sem lyti bara að samskiptum aðila á vinnumarkaði. Hér væri mjög djúpstæður vandi fyrir hendi. Hér hefði fólk áhyggjur af ráðstöfun og skiptingu auðlindanna. Fólk hefði áhyggjur af auknum ójöfnuði í landinu og fólk hefði áhyggjur af ófriði og sundurlyndi sem einkenndi íslenskt samfélag.

Ríkisstjórnin sem nú situr ætlaði að laga ástandið ef marka má stefnuyfirlýsingu hennar á sínum tíma, vinna gegn sundurlyndi og tortryggni. Sú sama ríkisstjórn býr við að hafa forsætisráðherra sem kemur hingað og afhjúpar vanhæfi sitt. Hann kemur á þessum örlagatímum og stendur hér í ræðustól og er á lægsta plani sem um getur í þingsalnum. Hann telur upp ræður, fer með statistík um fjölda ræðna og er (Forseti hringir.) með skæting við stjórnarandstöðuna.

Virðulegi forseti. Alþingi hefur stöðu til að hafa áhrif á það að stilla til friðar og (Forseti hringir.) hjálpa til við ástandið í samfélaginu með því að taka breytingartillöguna af dagskrá, burt séð frá vanhæfum forsætisráðherra.