144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að útskýra þetta á einni mínútu ef ég get. Minni hlutinn vill tala um kjaradeilur, meiri hlutinn vill tala um ramma. Ætlast er til þess að minni hlutinn fórni rammaáætlun en minni hlutinn vill að meiri hlutinn bíði aðeins eftir 3. áfanga. Minni hlutinn þarf að hanga hér fram á nótt — gott og vel, við gerum það — meiri hlutinn þarf bara að bíða og vera eins þrjóskur og hann getur verið, og hann getur verið mjög þrjóskur. Minni hlutinn vill bíða eftir frekari gögnum, meiri hlutinn vill notast við gömul gögn.

Minni hlutinn hefur alltaf boðið hv. þingmönnum meiri hlutans að koma hér og tala í ræðu eins fljótt og auðið er, alltaf. Þrisvar hefur það gerst, við höfum alltaf orðið við því, aldrei verið neinn ágreiningur um það. Á sama tíma er meiri hlutinn sífellt að kvarta undan því að við höfum málfrelsi hér; að láta eins og þessi staða sé vegna vonda minni hlutans er firra.