144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var mjög verðmæt yfirlýsing sem hæstv. fjármálaráðherra gaf hér þegar hann sagði og endurtók: Það sem hér er verið að ræða, þ.e. rammaáætlun, hefur ekkert með kjarasamninga að gera. — Hefur ekkert með kjarasamninga að gera, sagði hæstv. fjármálaráðherra. Svo mikið fyrir tilraunir hæstv. forsætisráðherra til að tengja það saman.

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér gengur verr og verr að skilja hvers vegna forseti fer jafn óskynsamlega með dagskrárvald sitt og raun ber vitni hér dag eftir dag. Það er svo fullkomlega úr takti við aðstæður, tímann, 21. maí, aðstæður í þinginu, að ég tali nú ekki um ástandið í þjóðfélaginu, að halda hér áfram þessu tilgangslausa dauðastríði breytingartillögu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og co.

Þetta er dauðastríð þessa málatilbúnaðar sem er hruninn til grunna. Það hlýtur að fara að renna upp fyrir hæstv. forseta. Þetta er sorgleg tímasóun sem mun engu skila nema að skapa erfiðari og erfiðari aðstæður við þinglokin.

Verst er þó það (Forseti hringir.) stöðumat sem þetta endurspeglar hjá ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta sem er að missa tökin á ástandinu í þjóðfélaginu.