144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Vegna ræðu hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar er rétt að taka fram að frammi liggur bréf frá mér og fleirum með ósk um þá umræðu hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í kjarasamningum sem nefnd var.

Að öðru leyti er ástæða vegna þessarar ræðu til að minna hv. þingmann á að stærsta kraftaverkið sem guð hefur gefið okkur er nýr dagur. Og hér á þingi er sem betur fer alltaf nýr dagur. Alveg sama í hversu miklar ógöngur við komumst í þinghaldinu og hversu mjög og nærri sem við göngum á virðingu þingsins gefst okkur á hverjum morgni færi á því að breyta því. Það gefst okkur núna í þessari atkvæðagreiðslu, að fara að þeim tillögum sem komið hafa frá (Gripið fram í: … dagskrá.) hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og senda málið aftur til nefndar og reyna að leita lausna á því þar, taka brýningum hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar um að halda ekki lengra áfram út í þetta fen sem engum er til gagns og fara að reyna að vinna að sáttum (Forseti hringir.) í þessu samfélagi í stað þess að vinna að stríði á hverjum degi.