144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þess að margir þingmenn hafa kosið að koma hér upp, og líka hæstv. forsætisráðherra, og vega sérstaklega að formanni Bjartrar framtíðar, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, og afstöðu hans til þessara mála. Ég deili um margt efasemdum hans um fyrirkomulag þingskapa eins og það stendur núna en það er ekki hægt að fara fram á það við þingmenn að þeir afsali sér stjórnarskrárbundnum réttindum eða tækjum sem þeir hafa samkvæmt þingsköpum til að verjast ofríki.

Við getum alveg snúið málinu á hinn kantinn. Ef hv. þm. Jóni Gunnarssyni og félögum hans í meiri hluta atvinnuveganefndar hefði dottið í hug að gera breytingartillögu um virkjun í Gullfossi, hefðum við átt að láta hana ganga hér til umræðu? (Gripið fram í: Gullfoss er …) Ef það hefði verið meiri hluti fyrir því í þingsal, hefðum við átt bara að leggjast á bakið og gefast upp?

Auðvitað er eðlilegt að við grípum til þeirra tækja sem við höfum til að benda á þá staðreynd að þessi tillaga stenst ekki form, stenst ekki lagaákvæðið um rammaáætlun og þess vegna eru á henni alvarlegir ágallar.