144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú hefur hv. formaður Samfylkingarinnar bæst í þann hóp sem fullyrðir að verið sé að fara á svig við lög, að við séum að brjóta lög með málsmeðferð okkar og tillöguflutningi. Hv. þingmaður er lögfræðingur og ég hvet hann til að rýna betur í það minnisblað umhverfisráðuneytisins sem er það eina sem hefur verið nefnt hér sem lögskýringargagn til að staðfesta þann málflutning. Það er engan veginn hægt að lesa út úr því minnisblaði annað en að við séum í fullum rétti með það sem við erum að gera hér, enda er enginn stór munur á því og því sem gert var á síðasta kjörtímabili. Við gerðum þar ekki ágreining um að þingið eða ráðherra væri að brjóta lög með málsmeðferð sinni. Það var algerlega farið að lögum. Meiri hluti þingsins breytti þar röðun virkjunarkosta, tók sex virkjunarkosti frá svokölluðum sérfræðingum, (Forseti hringir.) verkefnisstjórn og faghópum, [Kliður í þingsal.] og setti þá eftir þá faglegu meðferð í biðflokk. Nú erum við á sama grunni á grundvelli umsagna sem við höfum fengið um breytingartillögu okkar að færa ákveðna virkjunarkosti í nýtingarflokk. Það stenst algerlega lög eins og fyrri málsmeðferð og við munum halda okkur við það.