144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ástæða fyrir því að við viljum ræða meðal annars kjaramálin. Það kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra hér 19. maí, með leyfi forseta, að menn verði „að líta til þess hver verður niðurstaða hjá þeim aðilum sem eru í viðræðum vegna þess að menn hljóta að þurfa að laga aðkomu ríkisins að því sem kemur út úr því. Þar af leiðandi er ómögulegt, virðulegur forseti, að lýsa því yfir fyrir fram að aðgerðir eða innkoma ríkisvaldsins verði með tilteknum hætti á meðan menn sjá ekki til lands, vita ekki hvað aðilarnir semja um. Þá getur viðbót frá ríkisvaldinu jafnvel orðið til þess að auka við hugsanleg neikvæð áhrif kjarasamninga.“

Hér kemur skýrt fram að samninganefnd ríkisins hafi ekki nokkurt einasta umboð og í ljósi þess að hér er ekkert boðið umfram þessi 3% eða hvað það nú er sem vitað er að er ekki samningsgrundvöllur fyrir setur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra okkur fyrir. Við þurfum ekki að greiða hér atkvæði. Hvar eru frumvörpin um afnám hafta, virðulegi forseti og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra? (Gripið fram í.) Það er ástæðan fyrir því að við viljum ræða hér önnur mál sem falla undir það sem ég var hér að (Forseti hringir.) skýra út, m.a. kjaramálin. Afnám hafta hlýtur að vega ansi þungt í því.