144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, ég held að það sé mikilvægt að koma þessu máli af dagskrá inn í nefnd og fjalla þá betur um málið þar. Það kemur sífellt betur og betur í ljós, meðal annars í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, sem var að vitna hér í pappíra, hver skýringin er á því að lögð var fram tillaga um aðeins eina virkjun. Hvað stendur í greinargerðinni sem rök fyrir því? (Gripið fram í: Það er mjög skýrt.) Það er mjög skýrt já. Það er vegna þess að það var ekki annað tilbúið í afgreiðslu. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) Það var búið að biðja um úrskurð — við erum að tala um núið og ekkert ofbeldi til að koma þessu áfram.

Förum með þetta í nefnd, fáum úrskurð í sambandi við lagalegu ákvæðin, sem hér er verið að ræða um, komum á dagskrá málum sem brenna á samfélaginu, bæði kjaramálunum, sem eru í gríðarlega viðkvæmri stöðu og eru þegar farin að valda verulegum skaða, og reynum í framhaldinu (Forseti hringir.) að fá upplýsingar um það sem brennur á fólki. Það er verið að kveikja elda úti um allt land í menntamálunum, það er gríðarlega áríðandi að við fáum tækifæri til að ræða það.

Það kunna að vera ástæður fyrir því að forseti vill hafa þetta á dagskrá, að það sé þá að beiðni ríkisstjórnarinnar til að komast hjá því að ræða hin málin.