144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég segi já við þessa atkvæðagreiðslu um dagskrá vegna þess að ég vil að rammaáætlun fari til nefndar og frekari skoðunar áður en við höldum umræðu áfram í þinginu. En mér sýnist með því að horfa á rauðu ljósin á veggjunum að stjórnarmeirihlutinn ætli að velja ófriðinn og koma sér hjá því að ræða dægurmálin sem brenna mest á íslensku samfélagi, sem eru verkföllin.

Í því samhengi er líka athyglisvert að við erum annan daginn í röð að reyna að breyta dagskrá og ræða það að taka rammaáætlun af dagskrá, en upphaflegur flytjandi tillögunnar, hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, var ekki í atkvæðagreiðslunni í gær og er ekki í atkvæðagreiðslunni í dag Er það virkilega þannig að þeir sem þekkja best til forðast að koma hingað og segja skoðun sína? Og það sá aðili sem hafði rökin og lagði þau fram, að það væri ein virkjun tilbúin til afgreiðslu en engar aðrar. Það er mér töluvert umhugsunarefni, (Forseti hringir.) það hljóta að vera skýr skilaboð. Ég segi já, vegna þess að ég vil að rammaáætlun verði tekin af dagskrá og að við förum að taka dægurmálin og það sem mestu skiptir á þessu þingi.