144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir liggur málefnaleg tillaga minni hlutans á Alþingi um hvernig hægt sé að halda áfram með þetta mál. Við erum tilbúin að ganga til atkvæðagreiðslu um tillöguna sem hér á að fara að ræða í miklum ófriði eins og hún kom frá hæstv. þáverandi ráðherra og það er athyglisvert að hann hefur ekki látið sjá sig hér í þingsölum síðan fruntamenn í liði stjórnarmeirihlutans tóku við stjórninni á þingstörfunum.

Þessi tillaga liggur á borðinu. Það er alger óþarfi að efna til kvöld- eða næturfunda vegna þess að það er enginn ófriður af hálfu stjórnarandstöðunnar um þingstörfin. Við viljum vinna í fullkomnum friði og sátt með stjórnarmeirihlutanum. En við getum ekki sætt okkur við þá valdníðslu sem birtist í fruntagangi meiri hluta atvinnuveganefndar og því hvernig hún fer gersamlega á skjön við lagaákvæði.