144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:54]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég mundi fagna því að haldinn yrði lengri þingfundur ef við værum að fara að ræða stöðuna á vinnumarkaði; 65 þús. manns eru innan tveggja vikna að fara í verkfall. Það er verðugt viðfangsefni, eitthvað sem allir hér inni gætu einhent sér í að ræða.

Umræðan um þetta mál verður þinginu ekki til framdráttar, hvorki minni hluta né meiri hluta. Það ber of mikið í milli. Þess vegna er ég ekki hlynntur því að halda þennan fund. Ég mun greiða atkvæði gegn því eins og ég gerði í gær. Ég harma það að menn skuli ekki vera tilbúnir til að setjast niður og fara yfir þau mál sem einhver von er til að samstaða verði um hér í þinginu og eru mun brýnni en breytingartillaga hv. þm. Jóns Gunnarssonar.