144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í hvert sinn sem hv. þingmaður stjórnarmeirihlutans hefur beðið um að fá að taka til máls fyrr þá hefur verið orðið við því. Mér hefur fundist að þær umræður hafi verið hvað bestar og ég gæti tilgreint sérstaklega nokkra þingmenn meiri hlutans sem hafa flutt ágætar ræður hér, mjög málefnalegar og lýsandi, og umræður um þær ræður hafa verið góðar.

Það sem þessar ræður eiga yfirleitt sammerkt er að þær eiga sér stað mjög seint og í gærkvöldi fóru þær reyndar fram eftir miðnætti. Þá er þreyta komin í mannskapinn og fáir á svæðinu eins og gefur að skilja. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem mér finnst að við ættum frekar að reyna að hafa umræður með stjórnarliðinu sem fyrst í dag. Það er enginn stjórnarliði á mælendaskrá fyrr en í 17. sætinu, minnir mig, eða þar um bil. Meðal annars af þeirri ástæðu greiði ég atkvæði gegn tillögunni.