144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að sitja hérna áfram í kvöld og svo kvöld eftir kvöld eins og við höfum verið að gera. Það skilar í sjálfu sér engu fyrir lausn þessarar deilu nema þá menn haldi kannski að það geti þreytt þingmenn minni hlutans. Það er allt í lagi að sitja hérna í þingsal og lesa sér kannski til um það hvernig aðilar á vinnumarkaðinum vilja skapa langtímarammalöggjöf utan um farsælli kjarasamninga og slíkt sem ég hef verið að gera og halda þessu máli föstu hérna úr því að forseti vill alltaf setja það aftur á dagskrá. Minni hlutinn getur bara stöðvað það með því að sitja alltaf hérna. Og það er sjálfsagt að halda áfram að gera það. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ef þessu máli er hleypt áfram og það verður samþykkt af meiri hlutanum, sem það verður, þá er búið að skapa lagalega óvissu um það hvort verið sé að fylgja rammalöggjöf um langtímastefnumótun varðandi orkunýtingu. Það er slæmt. Það kemur mjög skýrt fram í McKinsey-skýrslunni um Ísland, bls. 85, að til þess að koma efnahagslífinu í gang þurfum við langtímastefnumótun sem er verulega ábótavant hér en ekki annars staðar á Norðurlöndunum. Það er tekið skýrt fram. Þannig að það er þess virði að standa í þessu.