144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég mun greiða atkvæði gegn því að halda kvöldfund og forseti sér það eins og hver maður að hér í þingsal eigum við við mikinn vanda að glíma. Hér mætast stálin stinn og ástandið versnar með hverjum deginum. Ekki er það til að laga ástandið þegar forustumenn stjórnarflokkanna koma hér og hella olíu á eldinn og ég vil biðja forseta að stíga ákveðið fram og taka í sínar hendur að stýra fundum Alþingis með farsælli hætti en hingað til hefur verið gert, setja á dagskrá mál sem þarfnast umræðu og setja þetta mikla deilumál til hliðar því að á meðan það er á dagskrá munum við eiga í þessum vanda. Ég treysti á forseta og bið hann um að leysa úr hnútnum.