144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því að forseta er mjög mikill vandi á höndum en það er einmitt við tilvik eins og það sem hér blasir við sem ríður á að hugsa út fyrir boxið. Þess vegna þykir mér vont að forseti skuli vera líkt og á sjálfstýringunni með það að undir þessum kringumstæðum þegar menn eru komnir stál í stál, hvað gerist þá, jú, þá boðar hann til kvöldfunda.

Ég átta mig á því að þetta er ein af þeim græjum sem er í gamla verkfæraboxi forseta allra tíma en þetta er ekki til lausnar fallið akkúrat núna. Þetta er til þess fallið að herða hnútinn enn þá meir. Ég bið virðulegan forseta að íhuga mjög vel með hvaða hætti heimildin verður notuð því ég geri mér grein fyrir því að það eru meiri líkur en minni á því að meiri hlutinn greiði atkvæði með lengdum kvöldfundi en hann verður því miður til þess að gera vandann enn þá erfiðari og færa okkur enn þá fjær raunverulegri lausn málsins.