144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að það þarf engum að koma á óvart þó að það snjói núna í síðari hluta maímánaðar. Það hefur verið hreint alveg hörmulegt veðurfar frá því að þessi ríkisstjórn tók við í landinu fyrir um það bil tveimur árum síðan eins og allir vita.

Ég vil um þessa tillögu um lengd þingfundar segja að hún veldur mér vonbrigðum því ég taldi í gær að það væru vonir til þess að menn gætu leyst úr þeim hnút sem hér væri og náð einhverri skaplegri samræðu um þinghaldið og framhaldið og þau mörgu mikilvægu mál sem eru á dagskrá. Ég vil bara segja að það er alfarið á ábyrgð meiri hlutans í þinginu, sem er að vísu fulltrúi minni hluta kjósenda svo það sé undirstrikað, að þær samræður hafa ekki haldið áfram. Það mun ekki verða til að auka líkurnar á farsælum málalyktum að halda kvöldfund og ég árétta áskorun mína til forseta (Forseti hringir.) að við séum ekki með þingfund meðan á þjóðarviðburðum stendur eins og er í kvöld.