144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það kemur enn fram í hádegisfréttum að Alþýðusamband Íslands hefur ekki traust á ríkisstjórninni og að ófriður á vinnumarkaði er nánast fordæmalaus að mati ríkissáttasemjara. Ég held því að það sé afar mikilvægt, þrátt fyrir að við séum hér í hálfgerðri frekjukallagíslingu, að við reynum að finna einhverja lausn á málinu í þágu þingsins í heild, að við látum ekki frekjukalla og þeirra fylgismenn varpa rýrð á það starf sem okkur er falið af kjósendum og sem við eigum að rækja vel í þágu lýðræðisins.

Þess vegna vil ég beina því til virðulegs forseta að tryggja það að fundur verði haldinn með þingflokksformönnum fljótlega til að fara yfir þá stöðu og til að freista þess að sjá til lands í þessu með einhverju móti og láta ekki stöðugan nið frekjunnar rugla fókusinn hjá okkur öllum, þrátt fyrir að (Forseti hringir.) hv. þm. Jón Gunnarsson tali hér algjörlega þindarlaust alveg óháð því hvort hann er í ræðustól eða ekki, (Forseti hringir.) láta það ekki trufla okkur (Forseti hringir.) og reyna að leita lausna.