144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Hæstv. fjármálaráðherra er vorkunn, hann hefur náttúrlega lítið verið í salnum. Það sem ég gerði áðan var að bera hönd fyrir höfuð mér eða eyru mér eftir mikinn bjölluhljóm sem ég varð fyrir vegna misskilnings forseta, eins og hann hefur sjálfur sagt.

Virðulegi forseti. Það kemur fram í fjölmiðlum í dag að hópar eru farnir að afbóka ferðir til Íslands á stærsta ferðamannatíma okkar. Það er fyrirséð þegar svona blasir við að menn hætta við bókanir eða horfa ekki til Íslands þegar kemur að því að bóka ferðir á næstunni. Mér finnst það alvarlegt. Það sem mér finnst enn þá alvarlegra er að við erum með ríkisstjórn í þessu landi, við erum með þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem virðast ekki hafa neinar áhyggjur af því og virðast ekki telja að þessi verkföll muni hafa nokkur teljandi áhrif á íslenskt samfélag, miðað við áhugaleysi þeirra á að ræða þá alvarlegu stöðu í þingsal. Menn koma sér undan því dag eftir dag, þó svo að þeim sé boðið upp á það með dagskrártillögu, samvisku hvers og eins þingmanns er boðið upp á að greiða atkvæði með slíkri umræðu, að taka á málunum, en það er afþakkað aftur og aftur. Mér finnst staðan alvarleg, herra forseti, og ég vona að virðulegur forseti fari að kalla til fundar með mönnum og vekja athygli þeirra á þessari alvarlegu stöðu og því hvert hlutverk Alþingis er.