144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði að biðja forseta formlega um að bregðast við þeirri ósk minni að við reynum, burt séð frá ástandinu hér, að stilla saman strengi þeirra sem eru lausnamiðaðir í þinginu og þeirra sem vilja veg þingsins sem mestan og vilja að lagaumbúnaður um rammaáætlun njóti vafans og að náttúra Íslands njóti vafans og vilja stuðla að sátt og jafnvægi í samfélagsumræðunni. Það er töluverður fjöldi af fólki sem er þeirrar skoðunar og ekki bara í stjórnarandstöðunni heldur líka í stjórnarliðinu. Það er vilji til þess, er ég sannfærð um, af meiri hluta þingsins að stilla saman strengi og forða þinginu frá þeim óförum sem við erum á leiðinni út í núna. Ég vil biðja virðulegan forseta að hafa forustu um það að reyna að leiða þessi sjónarmið sátta saman.