144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þau orð að það verði reynt að leiða þessi ólíku sjónarmið sem hér takast á saman og sjá hvort hægt sé að ná einhverri niðurstöðu sem allir geti sætt sig við eða menn geti orðið ásáttir um.

Mér þótti áhugavert að heyra málflutning hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur þegar hún sagði að lögin ættu að njóta vafans. Ég skil þetta þannig að hún hafi skipt um þá skoðun sem ítrekað hefur komið fram í ræðum hennar að það sé verið að brjóta lög. Við teljum að það sé enginn vafi varðandi þessa löggjöf. Ég ítreka það. Ég styðst þar við þau álit sem skrifuð hafa verið og önnur sem ég hef fengið víða að.

Ef þetta snýst um að náttúran njóti vafans þá vil ég rifja upp sáttaorð hv. þingmanns hér fyrr í umræðunni þar sem hún sagði að það gæti aldrei orðið nein sátt, það væri þegar (Forseti hringir.) gengið of langt, það væri þegar (Forseti hringir.) búið að virkja of mikið. Um það getur aldrei orðið sátt (Forseti hringir.) að ekki verði haldið áfram. Ef virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár valda svo miklu ósætti þá eru í raun engir aðrir virkjunarkostir sem koma til greina í landinu.