144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Málið er áfram í algjörum hnút og ég skal játa það að ég hef vissa samúð með hæstv. forseta að vera sá aðili sem þurfi að leita sátta og reyna að rekja upp hnútinn, en vil jafnframt minna hann á það að dagskrárvaldið er jú hans.

Ég vildi líka koma hérna upp til þess að taka undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og mér finnst málið einfaldlega vera komið á þann stað að nú verði að boða til fundar með formönnum og þingflokksformönnum og leggja í það þunga og mikla vinnu að ræða sig að einhverri sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig við getum haldið áfram þessa síðustu þingdaga, því augljóslega gengur þetta ekki svona.