144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjarasamningar og misskipting eigna í samfélaginu.

[12:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá hv. þingmanni að sáttasemjari hafi verið að gefa það í skyn að kjarabaráttan að þessu sinni sé óvenjulega pólitísk, að það séu alls konar pólitískar áherslur sem séu í raun ráðandi í samtali aðila í milli. Ég hef ekki orðið var við það sjálfur og veit ekki nákvæmlega hvað er átt við. En eflaust er það rétt að það skiptir máli hvernig sátt ríkir almennt í samfélaginu þegar gengið er til kjaraviðræðna.

Það sem ég get sagt um þessa þætti eins og til dæmis nýtingu auðlindanna í landinu er að það hafa aldrei skilað sér meiri tekjur í ríkissjóð af nýtingu auðlindanna með beinum og óbeinum hætti en gera þessi árin, árið í ár, og við væntum að gerist á næsta ári, meðal annars vegna þess að það kerfi um stjórn fiskveiða sem við höfum tryggir hámarksverðmætauppbyggingu auðlindarinnar. Við sjáum það til dæmis á vísitölu Hafrannsóknastofnunar um stærð þorskstofnsins. Við höfum aldrei í Íslandssögunni haft meiri arð beint og óbeint af nýtingu orkuauðlindanna í landinu. Aldrei. Og það skilar sér til ríkisins.

Talandi um sátt. Hvað getur ríkisstjórnin gert til þess að skapa meiri sanngirni svona almennt í þjóðfélaginu? Ja, þessi ríkisstjórn greip til þess að skattleggja fjármálafyrirtækin langt umfram það sem fyrri ríkisstjórn gerði þannig að skattar á fjármálafyrirtæki, þar með talið slitabú, skila núna 38 milljörðum á ári umfram það sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Setjum það í samhengi við raforkuskattinn sem fyrri ríkisstjórn sagði að yrði tímabundinn skattur og hann er að renna út núna um næstu áramót. Hann er upp á tæpa 2 milljarða. Það þarf um 20 ár af slíkum skatti til þess að ná upp í bankaskattinn sem þessi ríkisstjórn lagði á og hann er tekinn á hverju ári.

Það er því sannarlega auðvelt að benda á dæmi bæði um það hversu mikill arður kemur af auðlindunum (Forseti hringir.) beint og óbeint til þjóðarinnar og sérstakar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem ættu (Forseti hringir.) að verða til þess fallnar að skila til þjóðarinnar auknum (Forseti hringir.) ávinningi af því sem er að gerast í samfélaginu.