144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjaraviðræður og virkjunarmál.

[13:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Úr því að hæstv. forsætisráðherra hefur nú staðfest að þetta mál, deilurnar um virkjanirnar, tengist með engum hætti kjarasamningunum sjálfum, er þá ekki hæstv. forsætisráðherra tilbúinn til þess að taka hér á dagskrá fundarins mál eins og húsnæðisfrumvörp hæstv. félagsmálaráðherra eða önnur mál sem varða hag heimilanna í landinu og við getum sameinast um að ræða þau? Fjármálaráðherra sagði rétt í þessu að almenn sátt í samfélaginu skipti máli til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé því ekki sammála og hvort hann sé ekki tilbúinn til að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að auka sáttina, bæði hér í þinginu og í samfélaginu, með því að setja hér á dagskrá þau brýnu framfaramál sem hans eigin ráðherra, Eygló Harðardóttir, hefur unnið að þrotlaust síðastliðin tvö ár og enn eru ekki komin fram í þinginu en eru miklu þarfari en þessar deilur og líklegri til að skila okkur sameiginlegum árangri, virðulegur forsætisráðherra.