144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

kjaraviðræður og virkjunarmál.

[13:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það má nú taka undir það með hv. þingmanni að það eru fjölmörg mikilvæg og jafnvel brýn mál sem væri æskilegt að geta farið að ræða hér á Alþingi. Þess vegna væri mjög æskilegt ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar mundu láta sér nægja að vera búnir að slá öll fyrri met í umræðu um fundarstjórn forseta og fara að snúa sér að málefnalegri umræðu svo að við getum farið að ræða þau fjölmörgu mál.

Hv. þingmaður nefnir til dæmis húsnæðismálin. Þar hefur komið skýrt fram að hæstv. félagsmálaráðherra er tilbúin til þess að laga þau mál að þeirri niðurstöðu sem kann að verða í viðræðum um kjarasamninga þannig að húsnæðismálin eða breytingar þar á verði til þess að styrkja stöðu heimilanna, verði til þess að rétta hlut heimilanna enn frekar en leiði ekki til neikvæðra aukaverkana, þ.e. við þurfum í heildarniðurstöðunni, hvort sem er í húsnæðismálum eða kjaramálum í heild, að huga að því að (Forseti hringir.) afraksturinn skili sér til heimilanna.