144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

sameining framhaldsskóla.

[13:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um leiftursókn gegn framhaldsskólunum. Ég hef ítrekað úr þessum ræðustól bent á að staða framhaldsskólans á Íslandi er afskaplega slæm í öllum alþjóðlegum samanburði. Við Íslendingar erum í þeirri stöðu að námsframvinda á Íslandi er sú slakasta innan OECD og brottfallið það mesta. Einungis 45% af nemendum okkar ljúka námi á þeim tíma sem ætlað er. Þar vermum við botnsætið í alþjóðlegum samanburði og leiðir þetta meðal annars til þess að við fáum nemendur inn í háskólana okkar þannig að meðalaldur þeirra sem útskrifast með BA- og BS-gráður er rétt rúm 30 ár. Það er víða pottur brotinn í kerfinu.

Það sem við höfum reynt að gera í ráðuneytinu er að takast á við þessa stöðu. Við erum búin að koma því í gegn að mestum hluta að farið verði úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi varðandi framhaldsskólann okkar sem ég tel mikið framfaraskref. En það sem við verðum að gera núna er að bregðast við því sem fram undan er, sem er augljóst, að vegna minni árganga, bætts atvinnustigs og þess að við erum að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi verðum við að tryggja að sérstaklega minni skólarnir úti á landi séu áfram í færum til að veita þá þjónustu sem þeim ber að veita sem er gott námsframboð og gæðanám. Og ekki bara það, heldur líka nauðsynlega stoðþjónustu.

Það sem við erum að gera, virðulegi forseti, og mér finnst menn hafa farið langt fram úr sjálfum sér í þessari umræðu, er að finna leiðir til að skólarnir geti unnið saman, samþætt starfsemi sína eða runnið saman, hvernig sem við gerum það, þannig að hægt sé að skiptast á kennurum, nemendum og búa til betri námsleiðir fyrir krakkana þannig að við drögum úr því að það skipti máli hvort maður er fæddur til dæmis á Húsavík eða Akureyri. Það er það sem þetta gengur út á og að gefnu tilefni vil ég segja þetta: Það stendur ekki til að steypa öllum þessum skólum í einn og sama skólann undir einni yfirstjórn. Það stendur ekki til og verður ekki gert. Við höfum lagt fram hugmyndir um það sem við erum að leita að og unnið að því í næstum eitt og hálft ár þannig að þetta mál (Forseti hringir.) er ekki gert með einhverju hraði. Við höfum leitað að möguleikum og þá líka í samstarfi og samræðu við skólamennina um hvaða módel við getum búið til til að ná fram því sem er svo mikilvægt, meiri gæðum í skólastarfinu.