144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

sameining framhaldsskóla.

[13:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vildi að ég gæti þakkað hæstv. menntamálaráðherra fyrir svarið en þetta eru sömu gömlu frasarnir um alþjóðlegan samanburð o.s.frv. Hæstv. ráðherra talar um að þingmenn séu farnir fram úr sér í gagnrýni á þetta og sennilega sveitarstjórnarfólk og sjálfstæðisfélögin líka. Það er hins vegar aðeins einn aðili sem hefur farið langt fram úr sér og það er hæstv. menntamálaráðherra. Það að vinna sameiningartillögur út frá rissmyndinni frægu, áherslupennarissmyndinni, er ekki boðlegt. Ekkert samtal hefur átt sér stað, þetta er tilskipun að ofan sem hann sendir starfsmenn ráðuneytisins með til að flytja þessi vondu tíðindi.

Hann talar um samstarf. Er hæstv. ráðherra kunnugt um samstarf meðal litlu framhaldsskólanna vítt og breitt um landið, Fjarmenntaskólann sem tekur ekki krónu úr ríkissjóði? Hann er í gangi og ég ítreka spurningu mína: Ætlar hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að sameina framhaldsskóla fyrir upphaf næsta skólaárs? Já eða nei.