144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

breytingar á framhaldsskólakerfinu.

[13:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar styttinguna liggur nú fyrir að í hartnær 20 ár hefur það mál verið á teikniborðinu. Ótal skýrslur og ótal rannsóknir hafa verið gerðar á því verkefni. Fjöldi ráðherra hefur beitt sér fyrir því en það hefur ekki gengið fyrr en nú. Verkefnið hefur gengið mjög vel. Skólarnir sjálfir hafa lagt fram sínar útfærslur á námi í hverjum skóla og þannig höfum við tryggt það að ólíkar nálganir og ólíkar leiðir hafa fengið að njóta sín, einmitt vegna þess að það að fara í þriggja ára kerfi í staðinn fyrir fjögurra ára kerfi býður upp á sömu möguleika og verið hafa til að búa til ólíka skóla. Það er rangt sem hefur verið haldið fram að þetta sé bara einhver ein tegund af skólum. Ef menn bera til dæmis Tröllaskagaskólann saman við Kvennaskólann er þar langur vegur á milli.

Hins vegar er alveg rétt að það er mjög erfitt að breyta menntakerfinu. Áratugum saman höfum við verið með menntakerfi og framhaldsskólakerfi sem hefur staðið kerfum annarra þjóða að baki. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það verða átök og verður erfitt að gera þar breytingar á. Margir segja eins og hv. þingmaður: Sjálfsagt að breyta, en (Forseti hringir.) síðan þegar kemur að því annaðhvort að leggja fram tillögur eða standa með einhverjum breytingum er alltaf sagt: Nei, bara eitthvað annað, bara gerum einhvern veginn öðruvísi, höfum samráðið með einhverjum öðrum hætti.

Það er þetta sem er svo erfitt þegar verið er að breyta menntakerfinu, akkúrat þessi nálgun, virðulegi forseti.