144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

aðkoma ríkisins að kjarasamningum.

[13:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og mjög margir aðrir og án efa líka hæstv. fjármálaráðherra hef ég miklar áhyggjur af því sem er í gangi í samfélagi okkar út af kjaradeilum. Því langaði mig að spyrja hæstv. ráðherra Bjarna Benediktsson hvort ráðherranum finnist ekki tímabært að koma með einhverjar tillögur að lausnum. Það hefur verið hefð fyrir því í kjaradeilum að ríkið komi með eitthvert útspil til að greiða fyrir. Mér hefur fundist vanta svolítið á að reynt sé að höggva á þennan hnút. Nú sjáum við fram á að stærsta verkfall Íslandssögunnar sé að bresta á. Nú þegar hafa fjöldamargir hópar ferðamanna afboðað sig til landsins sem er áhyggjuefni. Því langaði mig aðeins að heyra hvort við fáum bráðum, bæði þingmenn og landsmenn, að sjá einhverja áætlun, einhverjar tillögur, frá ríkisstjórninni. Ég tel ekki gott að draga þessi mál á langinn. Það hefur nú þegar valdið miklu tjóni í samfélaginu að í raun sé svipað ástand í kjaradeilum og er á Alþingi varðandi það hvaða mál eru sett í forgang.

Maður heyrir líka hæstv. forsætisráðherra segja að forsenda til að leysa kjaraviðræður sé að virkja meira og mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé jafnframt hans skoðun.