144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

aðkoma ríkisins að kjarasamningum.

[13:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Varðandi húsnæðismálin er ég mjög hugsi yfir því sem ég heyri í umræðunni um stöðu kjaraviðræðna og viðhorf sumra þeirra sem koma þar að málum og virðast láta sér í léttu rúmi liggja útreikninga á mögulegum áhrifum þess að semja um of miklar nafnlaunahækkanir, þ.e. þeir gera lítið með aðvaranir, hvort sem þær koma úr Seðlabankanum eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, um að verðbólga gæti, ef menn semja um ákveðnar forsendur, farið upp sem og vextir vegna þess tjóns sem af því hlýst fyrir húsnæðismarkaðinn. Ég er hugsi yfir því að menn skuli láta þannig á sama tíma og gerðar eru kröfur til ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í húsnæðismálum vegna þess að það umfang sem við gætum mögulega komið með að borðinu þar gæti fuðrað upp í hærri verðbólgu og hærri vöxtum. Tjónið af niðurstöðu samninganna gæti orðið meira en ávinningur af aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Það sem við höfum fyrst og fremst verið að tala um er leigumarkaðurinn, félagslega húsnæðið og hvað við getum gert til að lækka (Forseti hringir.) byggingarkostnað og vaxtakostnað á húsnæðisliðnum. Ég ætla ekki að segja annað um 300 þús. kr. kröfuna en það að mér finnst hljóta að vera augljóst forgangsmál hjá okkur að lyfta öllum upp frá botninum (Forseti hringir.) og tekjuskattsbreytingar eru einkum hugsaðar til þess að auka kaupmátt þeirra sem hafa þurft að taka á sig viðbótarbyrðar á undanförnum árum. Ég er að hugsa um að sem allra flestir njóti góðs af þeim.