144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það hér áðan að í 45 daga hefur ekki náðst lausn á deilu ríkisins við hópa innan opinberra stofnana sem eru í verkfalli, eins og á sjúkrahúsum landsins. Í næstu viku munu hjúkrunarfræðingar einnig fara í verkfall. Þá mun það líka gerast í næstu viku að flugsamgöngur leggjast af til og frá landinu ef ekki semst. Á meðan ákveður ríkisstjórnin að stinga hausnum í sandinn, að vita ekki af þessu, taka ekki eftir þessu, ræða ekki um það og hefur þess vegna ekki lagt í eina einustu umræðu um þetta mál í þinginu. Það hlýtur að segja okkur að menn séu algerlega ráðalausir gagnvart þessari stöðu.

Þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, af því það hefur verið kallað eftir tillögum, að það verði haldinn fundur með forseta og þingflokksformönnum þar sem lagður verði grunnur að því að alþingismenn skilji ríkisstjórnina eftir og (Forseti hringir.) taki höndum saman um tillöguflutning til þess að svara kalli þessara hópa eftir bættum lífskjörum.