144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir bón um að haldinn verði fundur með þingflokksformönnum. Það er afskaplega vont fyrir okkur í þinginu að funda hér fram á nótt. Um hvað erum við að funda? Erum við að funda um bætt kjör lífeyrisþega? Erum við að funda um stöðuna á vinnumarkaði? Erum við að funda um alvarlega stöðu í heilbrigðiskerfi vegna verkfalla? Erum við að funda vegna matvælaframleiðslu eða ferðaþjónustu? Nei, við erum ekki að því. Ég held að kalla eigi til fundar, hæstv. forseti, með þingflokksformönnum.

Svo vil ég nú segja að við í minni hlutanum veigrum okkur ekki við að funda á kvöldin. Einhver hv. þingmaður hélt því fram að það væri af því við vildum horfa á Eurovision. Þá vil ég minnast þess sem er ánægjulegt með þennan hæstv. forseta í stólnum að þegar hann komst upp úr undankeppninni með Pollapönki þá fögnuðum við hér í salnum sérstaklega, þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði hvað það varðar. Það eru að sjálfsögðu málefnin sem skipta máli.