144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Auðvitað ætti það að vera viðtekin venja eða eitthvað sem ekki þarf að segja að þegar málin eru í svona hnút eins og þau eru í núna, þegar slíkir þinghnútar koma upp, og þetta er ekki í fyrsta skipti sem það gerist frá því ég kom á þennan vinnustað og örugglega ekki í síðasta skipti, ætti það að vera fastur liður í dagskrá þingsins að þingflokksformenn funduðu með forseta til að fara yfir stöðuna, ég tala nú ekki um þegar menn hafa deilt í eins langan tíma og í þessu máli, frá því í byrjun síðustu viku. Á köflum er andrúmsloftið í þingsalnum mjög óþægilegt og gengur lengra en góðu hófi gegnir í frammíköllum og rifrildum á milli manna. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að finna eitthvert rými til þess að fara yfir stöðuna (Forseti hringir.) og átta okkur á því hvernig hægt er að bæta hana.