144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, það er vissulega reiði hér í þingsal og það er hluti af því hvernig þessi mál hafa æxlast. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson, einn af flutningsmönnum þessarar breytingartillögu sem er hér svo umdeild, talaði um þá miklu reiði sem væri hérna í þingsal. Reiði getur verið sprottin af ýmsum toga. Reiði getur verið sprottin af réttlætistilfinningu og reiði getur verið sprottin af ójöfnuði. Svona mætti áfram telja. Réttlát reiði knýr menn áfram til að berjast fyrir góðan málstað. Það erum við í stjórnarandstöðunni að gera. Við erum að berjast fyrir því að farið verði í lögformlega ferla með nýtingu og vernd íslenskrar náttúru og við munum halda áfram að gera það.