144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég held að það geti verið mikið til í því að það sé ákveðið vantraust milli deiluaðila og í samfélaginu. Það kemur einmitt fram hjá Magnúsi Péturssyni ríkissáttasemjara að menn eigi við slíkt vantraust að etja í dag og hann rekur það alveg aftur til stöðugleikasáttmálans 2009, en það þarf ekki að hugsa langt aftur í tímann til að rifja upp það vantraust sem myndaðist þá milli stjórnvalda og launþegahreyfingarinnar í landinu.

Dr. Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og doktor í vinnumarkaðshagfræði frá Cornell-háskóla, sagði á fundi í hádeginu í dag að afleiðingar mikilla nafnlaunahækkana eins og verkalýðsfélögin hafa farið fram á yrðu þær að kaupmáttur yrði meiri í fyrstu en verðbólga mundi hækka, vextir yrðu hærri og skuldir heimilanna að sama skapi. Það kemur fram í minni fjárfestingu og minni hagvexti, sagði Katrín og bætti við: Er það það sem við viljum?

Það er nákvæmlega þetta sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur verið að segja. Við slíkar aðstæður hefur ríkisstjórnin engar (Forseti hringir.) lausnir. Hún getur ekki lagt neitt fram til að kynda það bál sem mundi kvikna við slíkar aðstæður. En (Forseti hringir.) ríkisstjórnin eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á í dag er tilbúin að leggja sitt lóð (Forseti hringir.) á vogarskálarnar í skynsamlegum samningum. (BjG: Ríkisvaldið er viðsemjandi …)