144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég upplifi sömuleiðis vantraust í samfélaginu öllu, mikið vantraust hjá mörgum til margra. Þetta hefur verið til staðar síðan við hrunið vil ég meina og við erum ekki að hjálpa til með því sem á sér stað á hinu háa Alþingi. Þess vegna finnst mér að við ættum öll að leggja kapp á það að reyna að finna einhverja lausn á ferlinu um rammaáætlun þannig að við getum alla vega haldið áfram.

Það sem er hvað ólíklegast til þess að koma á trausti er þegar menn vitna í það að einhver fyrri ríkisstjórn, sem á að hafa verið ægilega vond, hafi gert eitthvað, þess vegna megi þessi ríkisstjórn gera það sama eða þessi meiri hluti öllu heldur. Það er ekki traustvekjandi og það er ekki til þess fallið að byggja neinar brýr milli aðila. Þess vegna finnst mér meðal annars að hv. formaður atvinnuveganefndar eigi að íhuga alvarlega að draga til baka þessar breytingartillögur og reyna að koma að borðinu (Forseti hringir.) og finna einhverjar lausnir sem allir geta sætt sig við til framtíðar, vegna þess að þetta snýst ekki um virkjunarkostina sjálfa. Ég held (Forseti hringir.) að hv. formaður atvinnuveganefndar viti það.