144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það eru söguleg tíðindi þegar það gerist tvo daga í röð að hæstv. ríkisstjórn lætur lið sitt á Alþingi fella tillögu um að Alþingi taki til umræðu kjaramálin og þá alvarlegu stöðu sem er á vinnumarkaði í dag. Það blasir við að hér eru að verða alvarlegustu vinnudeilur sem hafa orðið um áratugaskeið, en samt gerist það dag eftir dag að ríkisstjórnin þorir ekki að ræða þau mál hér á hinu háa Alþingi. Hvers vegna? Vegna þess að þrákelkni liðsodda þessa máls sem hér er um að ræða er slík að menn vilja ekki hleypa málinu af dagskrá. Það sem er réttast að gera við þessar aðstæður, frú forseti, er að fresta þessu máli og reyna að finna hvort það sé hægt að ná þeim samkomulagsfleti sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson og fleiri hafa talað um, í staðinn fyrir að halda þessu máli hér í gíslingu og koma í veg fyrir það að við getum rætt þá alvarlegu (Forseti hringir.) stöðu sem er að skapast á vinnumarkaði.