144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[14:40]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þessi sérstaka umræða hafi komist á dagskrá í dag. Beiðnin var lögð fram fyrir einhverju síðan en tilefnið til þess að ræða markaðslausnir í sjávarútvegi er ærið. Það er sérstaklega mikilvægt núna þegar ráðherra boðar að útdeila aflaheimildum í makríl á ákveðinn hátt án þess að manni sýnist að nokkur tilraun sé gerð til að láta verð eða leigu á aflaheimildunum ráðast á frjálsum og opnum markaði. Fiskveiðistjórn er flókin, því neitar auðvitað enginn. Við erum flest sammála um að þjóðin er sameiginlegur eigandi að fiskveiðiauðlindinni, að auðlindin sé takmörkuð og þess vegna verði að stýra henni til að varðveita sjálfbærnina til að eyðileggja hana ekki.

Við erum flest sammála því að sú stýring eða kerfið sem lagt var upp með árið 1984 sé vel til þess bært að viðhalda þessari sjálfbærni og það er mjög vel, en enn er deilt um kvótakerfið sem lagt var upp með vegna þess að sumir er hafa fengið kvóta úthlutað hafa farið úr greininni með vasa fulla af fé þegar þeir hafa svo selt kvótann. Auðvitað spyr fólk sig: Bíddu, er það ekki þjóðin sem á auðlindina? Hvernig getur þetta fyrirkomulag talist réttlátt?

Ef kvótinn er svona verðmætur, þ.e. veiðirétturinn, af hverju er hann þá ekki seldur af ríkinu á almennum markaði, boðinn upp til dæmis, og ávinningurinn rennur þannig í ríkissjóð? Menn hafa farið aðra leið með því að leggja á veiðigjöld, en af hverju endurspeglast þessi gríðarlegu verðmæti sem við sjáum í kvótasölu ekki í veiðileyfagjöldum til ríkisins? Þetta eru auðvitað mjög réttmætar spurningar og það er raunar þannig að menn hafa verið að spyrja sig þeirra síðustu 30 árin. Þorkell Helgason stærðfræðingur skrifaði grein í Morgunblaðið 4. nóvember 1987 þar sem hann veltir þessu upp og ég ætla að fá að vitna í hana hér, með leyfi forseta:

„Ekki leikur vafi á því að kvótakerfið sem tekið var upp 1984 er spor í rétta átt. Úthlutun kvóta mun þó sífellt valda úlfúð. Eina færa leiðin er sú að hið opinbera selji aflakvótana. Kvótasala stuðlar að hagkvæmastri útgerð og tryggir jafnframt eðlilega hlutdeild allrar þjóðarinnar í þeim aukna arði sem vænta má af fiskveiðum í kjölfar bættrar stjórnunar. …

Yfirstandandi deilur í ráðgjafarnefndinni um fiskveiðistjórnun sýna berlega, að ókeypis úthlutun veldur eilífum ágreiningi. Sífellt verður reynt að lappa upp á úthlutunarreglurnar og tekið tillit til æ fleiri sjónarmiða, þar til kerfið er orðið óskapnaður. Þrátt fyrir það verður það aldrei sanngjarnt.

Út úr þessum ógöngum er ekki nema ein fær leið: að hið opinbera selji kvótana á markaðsverði, jafnvel á eins konar uppboði.“

Þessi grein hefði allt eins getað verið skrifuð í dag. Þorkell var sannarlega sannspár þegar hann spáði því að ókeypis úthlutun ríkisins á aflaheimildum mundi alltaf valda úlfúð. Þetta erum við að sjá í dag. Það er ástæðan fyrir því að meiri en 34 þús. manns hafa skrifað undir ákall til forseta Íslands um að skrifa ekki undir lögin frá hæstv. sjávarútvegsráðherra þar sem hann hyggst útdeila án endurgjalds gríðarlegum verðmætum til sumra en ekki annarra, þ.e. veiðiheimildum á makríl. Þetta ætlar sjávarútvegsráðherra að gera á grundvelli fyrri veiðireynslu á makríl sem er alls ekki aðferð sem ég mótmæli heilt yfir. Menn hafa gert ráð fyrir því og auðvitað þarf að taka tillit til þess, en ég set stórt spurningarmerki við það að öllum kvótanum sé útdeilt á þennan hátt, það sé gert því sem næst varanlega, og ég set líka stórt spurningarmerki við þann verðmiða sem settur er á aflaheimildirnar.

Ég hef tekið dæmi um makrílinn, virðulegi forseti, og ætla að leyfa mér að gera það áfram því að hér höfum við ljóslifandi fyrir framan okkur dæmi um það hvernig kvótaúthlutun er gölluð vegna þess að ekkert mið er tekið af markaðslausnum. Makríll hefur skilað 24 milljörðum í útflutningsverðmætum bara í fyrra og vegna þessara gífurlegu fjármuna hefur ráðherra ákveðið að setja 10 kr. aukagjald á þær aflaheimildir. Það veit enginn hvernig hæstv. ráðherra fann út þetta gjald.

Staðreyndin er sú að við vitum ekki hvort verðið sé rétt. Það er fullkomin óvissa um það, margir hafa haldið því fram að það sé allt of lágt og aðrir hafa kveinkað sér undan því. Eina leiðin til að sannreyna rétt verð sem á að renna til þjóðarinnar allrar er að finna það á markaði. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sé ekki sammála mér um þá ályktun að útgerðin viti í raun betur en stjórnmálamenn í þessum efnum, hún sé að minnsta kosti ávallt skrefi á undan stjórnsýslunni um rétt verð því að útgerðin miðar auðvitað við markaðina sem hún selur á dag frá degi.

Uppboðsgjald á aflaheimildum er hlutlaust gjald, ákveðið af útgerðinni sjálfri. Hún borgar eins mikið og hún getur en ekki meira en samkeppnisstaðan leyfir. Í þessu eru ýmsar leiðir sem ég fer inn á á eftir.

Ég hef áhuga á að vita hvaða skoðun ráðherra hefur á þessum markaðsleiðum í sjávarútvegi. Er ekki rétt að líta yfir söguna, (Forseti hringir.) viðurkenna það að ókeypis úthlutun veiðiheimilda hefur verið og er enn frumástæðan fyrir því að sátt næst ekki um stjórn í sjávarútvegi? Þarf ráðherra ekki að bregðast við því?