144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[14:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Upphaflegt markmið kvótakerfisins var að koma í veg fyrir ofveiði og skipta einhvern veginn niður á skip þeim fiski sem var þó í sjónum, fór minnkandi á þessum árum og hefur minnkað síðan, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Það er óhætt að segja að upphaflegt markmið um verndun fiskstofnanna hefur sem sagt tekist svo vel að nú eru fiskstofnarnir aftur að byggjast upp.

Vegna þess að það er hægt að selja á milli skipa og þar fram eftir götunum hefur kvótakerfið líka stuðlað að mun meiri hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsins og við þökkum öll fyrir það. Það að útgerðarmenn geti á hinn bóginn selt frá sér aflaheimildir sem þeir hafa fengið úthlutað án þess að greiða gjald fyrir hefur orðið eitt mesta deilumál meðal þjóðarinnar og valdið mestu misskiptingunni hér á landi, held ég. Þess vegna þarf að finna einhverja leið út úr þessum vanda og það er til gott tæki, virðulegi forseti, til að deila út takmarkaðri auðlind. Það er gert með verði og það er gert á markaði. Þess vegna á að deila kvótanum út á markaði alveg hreint eins og hverri annarri vöru. Þá leysum við um leið annað vandamál, virðulegi forseti, útgerðarmenn ákveða sjálfir hvað þeir greiða mikið fyrir hvert kíló sem þeir veiða. Þeir ákveða það sjálfir og þá þurfa ekki einhverjar reiknistofnanir að vera (Forseti hringir.) að reikna það út og fólk að rífast um hvort það sé réttmætt eða ekki.