144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel að farin hafi verið markaðsleið þegar framsalið var sett á í því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við núna og hefur valdið mikilli óánægju og deilum í þjóðfélaginu. Þar hefur samþjöppun orðið gífurleg, eitthvað um tíu stærstu fyrirtækin eru með 80% kvótans. Það hefur valdið því að mörg þorp á landinu eru á köldum klaka, brothættar byggðir. Önnur byggðarlög eru veik og berjast í bökkum vegna þessa og svo eru þriðju byggðirnar sem hafa vissulega grætt mjög á þessari miklu samþjöppun og njóta góðs af.

Ég tel að við eigum að læra af þessari reynslu og deila nýjum tegundum með öðrum hætti og fá góðan arð af þeim í þjóðarbúið en ekki með óheftu uppboði. Ég tel að það sé ekki af hinu góða, þá yrði mikil samþjöppun og sami hlutur mundi gerast eins og hefur gerst í núverandi kvótakerfi. Óheft markaðshyggja á bara ekki við alls staðar. Ég tel að hægt sé að skoða blandaðar leiðir varðandi útfærsluna á því, ég tel það alveg hægt, og deila þessari auðlind með einhverjum girðingum eins og maður segir, þar sem horft væri til mismunandi útgerðarflokka og byggða. Í dag eru 95% af makrílkvótanum í höndum sex stórra útgerðarfélaga. Ég tel það ekki af hinu góða. Það á að gefa fleirum tækifæri til að koma inn í þessa grein og nýta þá auðlind sem er komin inn í okkar lögsögu þó að við vitum ekki hve lengi hún staldrar við. Við getum gert það, við þurfum ekki, eins og kemur fram í því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu, að setja makrílinn í kvóta og með framsalið til langs tíma. Það er auðvitað algjört óráð að gera það og er þá algjörlega verið að binda hendur næstu stjórnvalda til langs tíma og njörva þetta kerfi niður með sambærilegum hætti og það kerfi sem við búum við. Ég tel að við getum náð góðum afrakstri af makrílnum með því að beita blandaðri leið, skoða (Forseti hringir.) leigu af kvóta og það má skoða einhverjar aðrar leiðir ef því er að skipta en ekki óheftar markaðslausnir.