144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þau tíðindi hafa nú orðið að fyrir stundu var birt á vef Hafnarfjarðarbæjar lögfræðiálit frá Andra Árnasyni hæstaréttarlögmanni sem kemst að þeirri niðurstöðu að hæstv. menntamálaráðherra sé óheimilt að leggja niður Iðnskólann í Hafnarfirði og sameina hann Tækniskólanum með þeim hætti sem hann hefur ákveðið því að til þess þurfi samþykki Alþingis. Jafnframt þurfi að leita samráðs við Hafnarfjarðarbæ vegna þess að bærinn sé skuldbundinn til kostnaðar vegna rekstrar skólans héðan í frá.

Virðulegi forseti. Ég sagði hér í morgun að hæstv. menntamálaráðherra færi eins og engisprettufaraldur um framhaldsskólana í landinu, það er ekki ofmælt. Ég hélt að Fiskistofuklúðrið væri næg áminning til ríkisstjórnarinnar um að fara varlega þegar kemur að beitingu opinbers valds og ákvörðunum um stofnanir. Ég hlýt að gera þá kröfu að málefni Iðnskólans (Forseti hringir.) í Hafnarfirði verði sett hér á dagskrá sem allra fyrst (Forseti hringir.) og þess verði krafist að hæstv. menntamálaráðherra komi hingað (Forseti hringir.) og taki þátt í lengri umræðu um þetta mál.