144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Jafnvel þótt við litum svo á að það mál sem hér er á dagskrá væri þingtækt og þannig um búið að það væri í raun hægt að ræða það að einhverju viti liggur alveg ljóst fyrir að það eru önnur og mun brýnni mál sem ríður á að ræða nú þegar. Þess vegna vil ég taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni um að hæstv. menntamálaráðherra verði að koma hér og standa fyrir máli sínu og þeim breytingum sem hann er að innleiða í íslensku skólakerfi. Það bætist nú ofan á allt annað sem við höfum verið að tala um síðustu daga að þurfi að setja á dagskrá, það lengist bara í þeirri röð af málum sem þarf að ræða, allt mál sem eru mun brýnni en það sem nú er á dagskrá. Þess vegna, hæstv. forseti, þurfum við aðra og breytta dagskrá.