144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ítrekað sagt í umræðunni að brýnustu málin sem við þurfum að ræða núna annað en rammaáætlun eru kjaradeilurnar, og það eru menntamálin. Nú kemur náttúrlega enn ein staðfestingin, ég hef verið með beiðni um sérstaka umræðu um það sem ég kalla niðurlagningu Iðnskólans í Hafnarfirði, vegna þess að það er verið að leggja þá stofnun niður, sú aðferð er notuð, og færa undir Tækniskólann til þess að losna við ákveðnar skyldur sem fylgdu eldri skólum. Þetta er ákveðið eftir fýsileikakönnun og síðan nánast á sólarhringnum eftir. Það er ekki opnað á neina umræðu, það er eins og óttinn sé svo mikill við það að ef einhver komist til að ræða málið á Alþingi eða almenningur eða sveitarfélag eða einhverjir íbúar, þá fari allt til fjandans. Eða hvað? Að það verði hnökrar á leiðinni til þess sem ráðherrann langar mest til að gera.

Við getum ekki búið við þetta fyrirkomulag í málaflokkum eins og t.d. heilbrigðismálum og menntamálum þar sem er engin ástæða til að gera ágreining. Engin ástæða til að gera ágreining. Við höfum sömu markmið í þeim málaflokkum, en það er verið að tæta þá í sundur (Forseti hringir.) með einhverjum geðþóttaákvörðunum einstakra hæstv. ráðherra.