144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það getur tekið á, ég hef verið í þeirri stöðu að þurfa að koma með erfið mál hingað inn í þingið og það tekur á af því maður þarf að eiga við fólk sem hefur kannski ekki alveg sömu skoðanir og maður sjálfur, en maður gerir það bara. Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar tekið ákvörðun um að gera það ekki. Henni finnst óþægilegt að koma inn í þingið og eiga samtal við þingmenn um mál sem hún er að fjalla um hverju sinni.

Virðulegi forseti. Þetta lögfræðiálit segir okkur að það sem við óttuðumst mest er að gerast, þ.e. að hæstv. menntamálaráðherra er að gerbreyta menntakerfinu án þess að fyrir því sé lagastoð. Það hlýtur að teljast það alvarlegt að menn telji að það þurfi að taka málið á dagskrá. Hættum þessum skollaleik. Tökum rammann af dagskrá og förum að ræða það sem skiptir máli. Ráðherrar eiga ekki að ganga sjálfala um stjórnkerfi (Forseti hringir.) landsins. Þeir eiga að eiga samtal við Alþingi reglulega. (Forseti hringir.) Og ef ekki um svona mál, ja, hvað þá, virðulegi forseti?