144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað ámælisvert eins og hér hefur komið fram hvernig haldið hefur verið á málum framhaldsskólanna. Ég og virðulegur forseti sem nú situr í forsetastóli höfum aðeins rætt þau mál. Þetta er ekki bara alvarlegt fyrir okkar kjördæmi sem stendur núna frammi fyrir miklum sameiningum, heldur varðar þetta landið allt. Af því að umfjöllunin hér hófst á sameiningu Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði þá er svo ljóst að þetta er ekki sameining, þetta er yfirtaka. „Stjórn Tækniskólans hefur ákveðið vegna fyrirhugaðrar sameiningar Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði að …“ Það er alveg ljóst að hér er um niðurlagningu skólans í Hafnarfirði að ræða og algjöra yfirtöku. Við erum er að fást við fullt af störfum eins og þau sem við stöndum frammi fyrir nú þegar í Norðausturkjördæmi, sem er algjörlega óásættanlegt, og hvar svo sem væri á landinu, að þetta gerist með þeim hætti sem er hér að gerast.