144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þau stórtíðindi sem hafa orðið með lögfræðiáliti Andra Árnasonar eru auðvitað þess eðlis að það kallar á tafarlausa umræðu í þinginu. Það er nú þannig að væntanlega munu sveitarfélög vítt og breitt um landið leita til þess ágæta lögmanns eða annarra og fá álit á því hvort niðurlagning þeirra skóla standist líka lagaákvæði. Það eru allar líkur á að svo sé ekki.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt upp með það að leggja af skóla með 90 ára sögu í Hafnarfirði og afhenda hann einkafyrirtæki úti í bæ. Það er uppleggið. Ég spurði hér í dag hversu lengi stjórnarþingmenn á landsbyggðinni ætluðu að standa þöglir hjá meðan hæstv. menntamálaráðherra leggur niður hvern framsækna skólann á fætur öðrum úti á landsbyggðinni. En maður hlýtur líka að spyrja þingmenn Suðvesturkjördæmis sem halda saman lífi þessarar ríkisstjórnar í hendi sér, þingmenn stjórnarflokkanna þaðan, hvað á einelti ríkisstjórnarinnar gagnvart Hafnarfirði að ganga lengi? Við erum búin að sjá (Forseti hringir.) Fiskistofuklúðrið. Og nú er orðið ljóst að gengið er fram (Forseti hringir.) með lögleysu í málefnum Iðnskólans. Hvað á þetta einelti ríkisstjórnarinnar gagnvart Hafnarfirði að ganga (Forseti hringir.) langt?