144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna orðum hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Það er svo að hugsanlega finnst einhverjum hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar þægilegt að þingið nýti allan tíma sinn um þessar mundir til að ræða þá tillögu um breytingu á rammaáætlun sem hefur verið til umræðu, en staðreyndin er sú að það eru fjöldamörg önnur mál í gangi í samfélaginu sem varða hag almennings gríðarmiklu. Við höfum nefnt kjaramálin en þessi mál, þetta eru stefnumótandi ákvarðanir í skólamálum, hvort sem er um að ræða styttingu eða skerðingu náms í framhaldsskóla, sem er ákveðið afturhvarf frá því svigrúmi og frelsi sem átti að einkenna framhaldsskólalögin 2008 og hæstv. ráðherra hefur ekki getað gert fyllilega grein fyrir hvernig hann telur að samrýmist þeim anda, fyrir utan sameiningar skóla sem munu hafa gríðarleg áhrif, ekki aðeins í Hafnarfirði heldur út um land allt. Skólarnir eru auðvitað hjarta í hverju samfélagi, bæði (Forseti hringir.) stórum og litlum. Þetta eru (Forseti hringir.) því stefnumótandi ákvarðanir sem þarf og á að ræða á Alþingi. (Forseti hringir.) Það er ekki nema sjálfsögð kurteisi.