144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að ræða það í forsætisnefnd og taka það almennt upp hversu mikilvægt er að Alþingi hafi möguleika á því að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu, því að það er okkar hlutverk. Menn hafa reynt að setja lög þar sem byggt er á ákveðinni stefnumótun og síðan er býsna góður rammi fyrir hæstv. ráðherra til að fylgja þeim lögum. Svo kemur allt í einu ákveðinn hópur eða einstaka hæstv. ráðherrar sem taka vald langt umfram það sem ætlast var til í upphafi og eyðileggja þar með þá hugmynd og vinnuform. Þeir ganga eins langt og þeir mögulega geta og hártoga svo hversu mikið þarf af lögum o.s.frv. Ég skora á hæstv. forseta að taka þetta upp og ræða hvernig við getum best sinnt eftirlitshlutverki okkar, vegna þess að svörin sem við fáum við skriflegum fyrirspurnum og óskum um umræður, tölvupóstum sem maður sendir sem nefndarmaður, óskum um fundi í nefndum, því er afar illa sinnt. Maður hefur oft ekki viljað fara í ræðustólinn til að ræða þetta af því maður hefur búist við að menn mundu leysa úr málum, en (Forseti hringir.) því miður hefur það ekki gengið eftir. Það er afar mikið áhyggjuefni fyrir (Forseti hringir.) hæstv. forseta og forsætisnefnd.