144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það eru fáheyrð tíðindi ef hæstv. menntamálaráðherra þröngvar fram einkavæðingu á stórum hlutum á skólakerfinu að því er virðist í gegnum lögbrot. Það er það sem hér er að koma fram. Ég get ekki annað en tekið fast undir þær kröfur sem hafa komið fram, m.a. frá hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um að þetta mál verði tekið til tafarlausrar umræðu í þinginu. Samkvæmt þingsköpum eiga þingmenn heimtingu á því að ráðherrar komi til fundar við þingheim þegar þeir óska þess til að ræða sérstök mál. Ég held að þetta mál þoli enga sérstaka bið. Ég er ekki reiðubúinn til þess að bíða eftir því að hæstv. ráðherra komi og ræði þetta mál við okkur á morgun. Það liggur fyrir að þingfundur á að standa fram undir miðnætti. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. menntamálaráðherra verði að stíga fram úr fylgsni sínu og koma hingað og standa fyrir máli sínu. Það gengur ekki að hann renni sér fótskriðu á lögbrotum í gegnum menntakerfið með þessum hætti.